eTwinning kennurum fjölgar í átaki

Fréttir

Þetta skólaár, skólaárið 2014-2015, hefur verið í gangi sérstakt verkefni í Hafnarfirði um að gefa fleiri grunnskólakennurum í bænum tækifæri til að taka virkan þátt í eTwinning verkefni Evrópusambandsins.

Þetta skólaár, skólaárið 2014-2015, hefur verið í gangi sérstakt verkefni í Hafnarfirði um að gefa fleiri grunnskólakennurum í bænum tækifæri til að taka virkan þátt í eTwinning verkefni Evrópusambandsins. Áður en verkefnið hófst voru 10,9% kennara í Hafnarfirði skráðir í eTwinning en nú í lok skólaársins voru þeir 18,9%. Fjöldi verkefna með hafnfirskum kennurum var 8 en eru nú 26. Það voru 2,9% kennara í grunnskólum Hafnarfjarðar að sinntu verkefnum í eTwinning áður en núna eru þeir 5,1%. Því hefur fjöldi þeirra nær tvöfaldast á þessu skólaári miðað við hin níu árin sem eTwinning verkefnið hefur staðið yfir. Markmiðið var/er að 10% grunnskólakennara í Hafnarfirði verði virkir í eTwinning og er þess vænst að enn muni kennurum frá Hafnarfirði fjölga sem taka þátt í eTwinning á næstu árum.

eTwinning verkefnið í vetur fólst í því að allir grunnskólakennarar í bænum og skólastjórnendur fengu sérstakt námskeið sl. haust með stuttri kynningu á möguleikum þess fyrir kennara. Síðan var áhugasömum kennurum boðið á vetrarlangt námskeið með ítarlegum stuðningi til að geta orðið virkur þátttakandi í verkefninu. Rúmlega 20 kennarar sóttu það námskeið.

Jafnframt var það hluti átaksins í Hafnarfirði í vetur að bjóða hafnfirskum kennurum á eTwinning starfsþróunarvinnustofu þar sem kennarar víðs vegar úr Evrópu hittast, mynda tengsl og ræða kennsluhugmyndir. Fjórum kennurum frá Hafnarfirði bauðst því að taka þátt í einni slíkri vinnustofu og eru þeir að fara í lok þessarar viku á þriggja daga vinnustofu um sköpun í öllum námsgreinum sem haldin er í Belgíu. Þeir sem fara á vinnustofuna voru dregnir úr hópi virkra virkra kennara í eTwinning í vetur. Það eru Úlfhildur H. Guðbjartsdóttir (Hvaleyrarskóla), Hjördís Ýr Skúladóttir (Hraunvallaskóla), Svandís B. Harðardóttir (Víðistaðaskóla) og Marc Portal úr Stóru-Vogaskóla í Vogum (en sá skóli er þjónustaður af Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar og er því gjaldgengur til ferðarinnar).

„eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum, svo nokkuð sé nefnt, allt með hjálp upplýsingatækni.“ (Heimasíða eTwinning á Íslandi.) eTwinning er lykilverkefni Evrópusambandsins í upplýsingatækni fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Myndin er vinnustofuförunum ásamt fulltrúum frá eTwinning á Íslandi, f.v. séð Kolbrún Svala Hjaltadóttir, eTwinning ambassador, Guðmundur Ingi Markússon, verkefnisstjóri eTwinning á Íslandi og Úlfhildur, Svandís og Hjördís en Marc vantar á myndina.

Ábendingagátt