Flóttafjölskyldurnar okkar

Fréttir

Hópur af sýrlensku flóttafólki lenti á Keflavíkurflugvelli síðdegis dag eftir langt ferðalag. Flóttafjölskyldurnar eru fjórar og setjast þrjár þeirra að í Hafnarfirði og ein í Kópavogi. 

Hópur af sýrlensku flóttafólki lenti á Keflavíkurflugvelli síðdegis dag eftir langt ferðalag. Flóttafjölskyldurnar eru fjórar og setjast þrjár þeirra að í Hafnarfirði og ein í Kópavogi. Það var þakklátur og þreyttur hópur sem mætti til stuttrar móttöku í Hafnarborg í Hafnarfirði áður en haldið var á ný heimili í nýju landi.

Í hópnum sem kom til landsins í dag voru fjórar fjölskyldur eða 13 einstaklingar í heild, 9 fullorðnir og 4 börn. Þrjár þeirra eða 11 einstaklingar setjast að í Hafnarfirði. Mikill undirbúningur hefur átt sér stað síðustu vikur og mánuði til að tryggja faglega og góða móttöku. Næstu daga, vikur og mánuði munu allir leggjast á eitt að hjálpa fjölskyldunum fjórum að komast hratt og örugglega inn hlutina og veita viðeigandi ráðgjöf og þjónustu þannig að þær geti sem fyrst tekið virkan þátt í samfélaginu. Fólkið er allt landflótta Sýrlendingar og hefur dvalið í Líbanon um lengri eða skemmri tíma, þaðan sem það kom með flugi í dag eftir millilendingu í París. Haldin var stutt móttökuathöfn við komu fólksins þar sem félags- og húsnæðismálaráðherra og bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar ásamt fulltrúum bæjaryfirvalda í Hafnarfirði og Kópavogi, Rauða krossins og ráðuneytis buðu þessa nýju landa velkomna með hlýjum orðum og góðum gjöfum.

„Án efa á margt eftir að koma ykkur á óvart á næstu dögum, vikum og mánuðum, hvort sem það eru siðir og venjur okkar, veðráttan eða náttúran en vonandi fer ykkur að líða eins og innfæddum með tíð og tíma og komist þið að því að við erum ekki svo frábrugðin ykkur“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra í móttökuathöfninni. Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, tók einnig til máls og bauð fjölskyldurnar velkomnar til landsins og til Hafnarfjarðar.  

Ábendingagátt