Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

11. nóvember er þjóðhátíðardagur Póllands

Fréttir

Húsfyllir var á Bókasafni Hafnarfjarðar um helgina þegar Pólverjar og vinir Pólverja í Hafnarfirði og víðar fögnuðu þjóðhátíðardegi Póllands. Pólska samfélagið í Hafnarfirði er öflugt og tengslin við m.a. Bókasafn Hafnarfjarðar mikil sem endurspeglast hvað best í bókakosti, viðburðum, samstarfi og samverustundum á pólsku.

Húsfyllir var á Bókasafni Hafnarfjarðar um helgina þegar Pólverjar og vinir Pólverja í Hafnarfirði og víðar fögnuðu þjóðhátíðardegi Póllands. Stór hluti íslensku þjóðarinnar, eða um 25.000 manns, eiga rætur að rekja til Póllands og stærsti hluti erlendra ríkisborgara búsettir í Hafnarfirði er frá Póllandi. Pólska samfélagið í Hafnarfirði er öflugt og tengslin við m.a. Bókasafn Hafnarfjarðar mikil sem endurspeglast hvað best í bókakosti, viðburðum, samstarfi og samverustundum á pólsku.

Fjöldi gesta mætti til þjóðhátíðarfögnuðar

11. nóvember er mikilvægur og stór hátíðardagur í Póllandi. Á þessum degi fagna Pólverjar stofnun hins frjálsa Póllands sem endurheimti sjálfstæði sitt þennan dag, eftir 124 ár af hernámi annarra þjóða. Í tilefni dagsins var boðið til þjóðhátíðarveislu á Bókasafni Hafnarfjarðar og mættu rúmlega 300 gestir til leiks og fengu kynningu á deginum, tilurð hans og sögu. Flutningar Pólverja til m.a. Hafnarfjarðar hafa að stærstum hluta tengst vinnu og margir komu til landsins með tímabundna dvöl og vinnu í huga en hafa ílengst og margir hverjir sest að á Íslandi til frambúðar, auk þess sem að nú vex upp þriðja kynslóð Pólverja á Íslandi, tvítyngd börn og fullorðnir jafnt.

Fjöldi gesta mætti til þjóðhátíðarveislu í Bókasafni Hafnarfjarðar

Fjöldi gesta mætti til þjóðhátíðarveislu í Bókasafni Hafnarfjarðar

Stuttmyndin – Ég er pólsk

Á þjóðhátíðarfögnuði var boðið upp á kaffi og kruðerí, sungið og farið með ljóð, auk þess sem að barnakór mætti frá PERSONA – pólskumælandi leikskóla. Einnig var sýnd myndin „Ég er pólsk“,  stuttmynd þar sem hin unga Vanessa talar um líf sitt og samfélagið í kringum sig. Vanessa er ein af þeim fjölmörgu pólskumælandi börnum sem búa á Íslandi, og þekkja Ísland eitt sem heimili – en stundum leitar hjartað annað, sérstaklega þegar hún lítur í augu móður sinnar. Pólska bókasafnið í Hafnarfirði á heiðurinn að myndbandinu og þar spilaði pólski bókavörðurinn og starfsmaður Hafnarfjarðarbæjar Kasia Chojnowska stórt og mikilvægt hlutverk.

Mikilvægt að halda í hefðir og hamingjustundir tengdar heimahögunum

Pólverjar í Hafnarfirði eru mikilvægur hluti af hafnfirsku samfélagi og hefur Hafnarfjarðarbær lagt ríka áherslu á að aðstoða Pólverja, líkt og önnur þjóðerni, við að kynnast samfélaginu, ýta undir virka þátttöku með skipulagningu viðburða á pólsku og með því að búa til vettvang sem m.a. Pólverjar geta nýtt til að hittast, vera saman og búa til eigin viðburði og skemmtun sem m.a. tengjast heimahögunum og pólskum hefðum.

Takk Kassabókasafnið á Ólafsvík, Pólski leikskólinn og Bókasafn Hafnarfjarðar fyrir lán á myndum og myndbrotum.

Ábendingagátt