Laddi fær hjartastein í Hafnarfirði

Fréttir

Hjartasteinn til heiðurs leikaranum, söngvaranum, tónskáldinu, skemmtikraftinum og Hafnfirðingnum Þórhalli Sigurðssyni, best þekktum sem Ladda, var lagður fyrir framan Bæjarbíó í hjarta Hafnarfjarðar í dag. Hjartasteininn hlýtur Laddi fyrir leikinn, gleðina og skemmtunina sem hann hefur fært öllum aldurshópum um árabil.

 

Laddi fær hjartastein í Hafnarfirði

Hlátrasköll og botnlaus gleði um áratuga skeið

Hjartasteinn til heiðurs leikaranum, söngvaranum, tónskáldinu, skemmtikraftinum og Hafnfirðingnum Þórhalli Sigurðssyni, best þekktum sem Ladda, var lagður fyrir framan Bæjarbíó í hjarta Hafnarfjarðar í dag. Hjartasteinninn er sá þriðji fyrir framan bíóið en fyrir eru steinar tileinkaðir tónlistarmanninum Björgvini Halldórssyni og Guðrúnu Helgadóttur rithöfundi. Hjartasteininn hlýtur Laddi fyrir leikinn, gleðina og skemmtunina sem hann hefur fært öllum aldurshópum um árabil.

Vinirnir Laddi og Björgvin bregða á leik en báðir eiga þeir nú hjartastein í Hafnarfirði.

Vinirnir Laddi og Björgvin bregða á leik en báðir eiga þeir nú hjartastein í Hafnarfirði.

Laddi lengir lífið – líka í brandarabænum Hafnarfirði

Laddi er landsmönnum flestum að góðu kunnur og þá ekki síst fyrir sköpun sína á fjöldanum öllum af karakterum sem margir kannast við. Eiríkur Fjalar, Saxi læknir, Skúli rafvirki, Magnús bóndi, Elsa Lund og Marteinn Mosdal eru meðal þessara karaktera og vilja margir meina að einhverjir þeirra séu fæddir í brandarabænum Hafnarfirði líkt og Laddi sjálfur. Laddi hefur gefið út plötur, leikið í kvikmyndum og tekið þátt sem handritshöfundur og/eða leikari í áramótaskaupum og fjölda þátta sem yljað hafa andann og glatt hafa landann um áratuga skeið. Laddi tók þátt í stofnun Spaugstofunnar árið 1985 og starfaði með hópnum fyrstu árin. Meðal hans helstu afreka eru Heilsubælið, Stella í orlofi, Stella í framboði, Löggulíf, Magnús, Regína, Íslenski draumurinn, Amma Hófí og ljúfsáru gamanþættirnir Jarðarförin mín og Brúðkaupið mitt hvar fæðingarbærinn Hafnarfjörður er í lykilhlutverki. Laddi hefur einnig talsett mikinn fjölda kvikmynda og teiknimynda og afrekaði það m.a. að talsetja allar teiknimyndirnar um Strumpana einn síns liðs.

Hjartasteininn hlýtur Laddi fyrir leikinn, gleðina og skemmtunina sem hann hefur fært landanum um áratuga skeið.

Hjartasteininn hlýtur Laddi fyrir leikinn, gleðina og skemmtunina sem hann hefur fært landanum.

Baulaðu nú Búkolla…

Frægustu verk Ladda í leikhúsi eru líklega Fagin í Óliver Twist og Tannlæknirinn í Litlu Hryllingsbúðinni. Laddi var í tvíeykinu Halla og Ladda ásamt bróður sínum Haraldi Sigurðssyni og nutu þeir bræður gríðarlegra vinsælda á áttunda áratug tuttugustu aldar. Platan “Látum eins og ekkert C”, sem unnin var með Gísla Rúnari Jónssyni, er líklega þekktasta plata þeirra. Á níunda áratugnum stofnuðu Halli og Laddi HLH-flokkinn ásamt Björgvini Halldórssyni. Laddi hóf tónlistarferil sinn sem trommari í hljómsveitinni Föxum og hefur á sínum ferli samið fjölda laga sem mörg hver hafa náð miklum vinsældum, t.d. Sandalar, Austurstræti og Búkolla. Í seinni tíð hefur Laddi fagnað stórafmælum sínum meðal annars í faðmi fjöldans með Laddi 6-tugur í Borgarleikhúsinu, Laddi 7tugur í Hörpunni og Laddi 75 í Háskólabíó.

Nánasta fjölskylda og vinir Ladda voru viðstödd afhjúpun hjartasteinsins.

Nánasta fjölskylda, vinir Ladda og aðdáendur voru viðstödd afhjúpun hjartasteinsins.

Lauflétt athöfn og vinsæl sýning með Eyþóri Inga

Nánasta fjölskylda og vinir Ladda voru viðstödd afhjúpun hjartasteinsins við lauflétta athöfn og ljúfan barnasöng i í Bæjarbíó rétt áður en þjóðargersemin Laddi steig á svið í bíóinu með góðvini sínum Eyþóri Inga. Þessa dagana stendur yfir sýning í Bæjarbíói sem kennd er við þá félaga og byggir að hluta til á 75 ára afmælissýningu Ladda. Þessi nýja sýning er einstök töfrablanda af leiksýningu og uppistandi þar sem farið er um víðan völl og góðvinir á borð við Elsu Lund, Mófreð gamla, Eirík Fjalar, Saxa og Magnús Bónda kíkja í heimsókn. Upphaflega áttu sýningarnar aðeins að vera fjórar talsins en viðbrögðin voru þannig að fleiri sýningum var fljótt bætt við.

Ábendingagátt