Ný áætlun í barnavernd

Fréttir

Síðustu mánuði hefur endurskoðun átt sér stað framkvæmdaáætlunar í barnavernd frá árunum 2010 – 2014. Ný verkefnamiðuð framkvæmdaáætlun liggur nú fyrir. 

Síðustu mánuði hefur þverpólitískur hópur, með stuðningi og styrk
starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar, unnið að endurskoðun framkvæmdaáætlunar í
barnavernd frá árunum 2010 – 2014. Margt hefur áunnist í barnaverndarmálum í
Hafnarfirði síðustu árin og sífellt er verið að leita leiða til að gera
verkefni skilvirkari og auka tækifæri starfsmanna til að nýta fjölbreyttari
aðferðir til úrlausna. Ný framkvæmdaáætlun liggur nú fyrir.

Barnaverndarnefnd,
fjölskylduráð og fræðsluráð Hafnarfjarðar vilja stuðla enn frekar að öryggi og
velferð barna og skapa fjölskylduvænt samfélag með gerð nýrrar áætlunar. Ætlunin
er að ná breiðri samstöðu og samvinnu í bænum og við önnur bæjarfélög varðandi
árangursríka barna- og fjölskylduvernd. Lögð er áhersla á að byggja á
fræðilegum aðferðum og úrræðum sem sýnt hafa góðan árangur. Markmiðið er að
fækka alvarlegum barnaverndarmálum og móta leiðir til að hægt sé að bregðast
við strax og velferð barna er í hættu. Ný framkvæmdaáætlun er því mjög
verkefnamiðuð og verkefnin flest samvinnuverkefni mismunandi stofnana. Áætlunin
er fyrst og fremst leiðarvísir fyrir þá sem starfa að barnaverndar- og
forvarnarverkefnum auk þess að vera stefnumarkandi fyrir stjórnendur.  Framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum er ein
af leiðum Hafnarfjarðarbæjar til að auka skilvirkni og efla samstarf þeirra sem
vinna með börnum og barnafjölskyldum.  Auk
þess að halda áfram góðu og vönduðu barnaverndarstarfi hefur starfshópur um
framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum í Hafnarfirði ákveðið að hrinda í
framkvæmd og skerpa á ákveðnum verkefnum.

Sérstaklega er horft til eftirtalinna þátta á árunum 2014-2018:

  • Skapa barnavernd jákvæða ímynd meðal bæjarbúa með vönduðu starfi,
    fræðslu og upplýsingum
  • Efla fjölskylduna með markvissum stuðningi við foreldra í
    uppeldishlutverki þeirra
  • Stuðla að aukinni samvinnu og markvissari vinnubrögðum í málefnum barna
    og fjölskyldna
  • Aukin áhersla á þverfaglega nálgun í vinnslu barnaverndarmála
  • Auka vitund þeirra, sem starfa með börnum í frítíma þeirra um barnavernd
  • Áfram verði unnið að því að þróa starf Litla hóps
  • Hópastarf fyrir börn og unglinga
  • Námsbraut fyrir starfsmenn félagsmiðstöðva
  • Líðan barna og forvarnir gegn einelti
  • Efla leik- og grunnskóla við að skapa úrræði og koma til móts við börn
    með hegðunar-, tilfinningalega og/eða námserfiðleika
  • Samráð og bætt þjónusta við innflytjendur
  • Innleiða ESTER í starf barnaverndar
  • Hinsegin fræðsla í grunnskólum bæjarins
  • Samstarf á milli sveitafélaga um úrræði
  • Sameiginlegur rekstur vistheimilis fyrir börn
  • Samstarf með Kópavogi um skammtímavistun barna 

Framkvæmdaáætlun má nálgast
hér

Ábendingagátt