Skuggakosningar í Hafnarfirði

Fréttir

Verkefni Ungmennaráðs Hafnarfjarðar „Skuggakosningar í Hafnarfirði“ var eitt þeirra verkefna sem hlaut styrk úr Jafnréttissjóði Íslands. Verkefnið gengur út á það að virkja ungmenni til þátttöku í lýðræði.

Afhending styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands fór fram við hátíðlega athöfn í Iðnó þann 19. júní. Tæplega 100 milljónir króna voru til úthlutunar og voru styrkir veittir til verkefna og rannsókna sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra afhenti styrkina. Verkefni Ungmennaráðs Hafnarfjarðar „Skuggakosningar í Hafnarfirði“ var eitt þeirra verkefna sem hlaut styrk að þessu sinni.

Verkefnið Ungmennaráðs gengur út á það að virkja ungmenni til þátttöku í lýðræði með því að halda svokallaðar ,,skuggakosningar“ við framhaldsskóla í Hafnarfjarðarbæ (mögulega einnig við unglingadeildir grunnskólana). Fyrirmynd slíkra skuggakosninga er að finna í módeli sem Norðmenn hafa nýtt sér frá 1989 gagngert til að virkja og kveikja áhuga ungmenna í framhaldsskólum til þátttöku í lýðræði. Ungliðahreyfingar frá stjórnmálaflokkum mæta m.a. í skólana til að kynna ferli lýðræðis og kosninga. Það var María Birna Jónsdóttir hjá Ungmennaráði Hafnarfjarðar sem tók sem tók við 500.000.- styrk frá félags- og húsnæðismálaráðherra.

42 umsækjendur hlutu styrk

Alls bárust 114 umsóknir um styrki til fjölbreyttra verkefna og var heildarfjárhæðin sem sótt var um 570 milljónir króna. Að þessu sinni hlutu 42 umsækjendur styrki. Í samræmi við reglur leggur stjórn sjóðsins áherslu á að veita fé til verkefna sem m.a. hafa að markmiði að efla jafnrétti á vinnumarkaði, varpa ljósi á samfélags- og efnahagslegan ávinning af jafnrétti, vinna gegn kynbundnu ofbeldi, falla undir þróunarverkefni í skólakerfinu, hvetja ungt fólk til aukinnar samfélagsþátttöku og stjórnmálastarfs og varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð. Þetta er í fyrsta sinn sem styrkir eru veittir úr Jafnréttissjóði Íslands en sjóðurinn var stofnaður í fyrra með ályktun Alþingis nr. 13/144, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. 

Ábendingagátt