Fólk með fötlun

Fólk með fötlun á rétt á þjónustu og stuðningi sem það þarf til að lifa sjálfstæðu og virku lífi. Í Hafnarfirði er þjónandi leiðsögn höfð að leiðarljósi. Hlýja og hvatning er sýnd í öllum aðstæðum.

Fjölskyldustuðningur

Sækja um stuðning

Fjölskyldur barna með fötlun geta fengið tímabundna dvöl fyrir börn og ungmenni með miklar umönnunarþarfir.

Skammtímadvöl

Í skammtímadvöl er boðið upp á hvíld og afþreyingu, aðstoð og leiðbeiningar við athafnir daglegs lífs auk þess að undirbúa flutning úr foreldrahúsum. Með þjónustunni er létt á álagi af fjölskyldum og börn fá tilbreytingu og tækifæri til að njóta sín.

Fullorðið fólk með fötlun með langvarandi stuðningsþarfir, sem býr í foreldrahúsum, getur einnig nýtt sér skammtímadvöl meðan beðið er eftir annarri þjónustu

Dvölin getur bæði verið reglubundin eða bara á ákveðnu tímabili. Dvalartíminn er breytilegur eftir aðstæðum hvers og eins. Oft eru það nokkrir sólarhringar í mánuði.

Þjónusta í skammtímadvöl kostar ekkert. Einstaklingar eldri en 18 ára þurfa þó að borga matarkostnað.

Sótt er um skammtímadvöl á Mínum síðum.

  • Móaflöt í Garðabæ er skammtímadvöl fyrir börn 16 ára og yngri.
  • Hnotuberg 19 í Hafnarfirði er sólarhringsþjónusta fyrir fólk frá 16 ára aldri. 6 einstaklingar dvelja þar hverju sinni. Dvalartími er ýmist  3, 4 eða 7 sólarhringar á fjögurra vikna fresti.
  • Hrauntunga í Kópavogi er fyrir fólk frá 18 ára aldri og er undirbúningur fyrir sjálfstæða búsetu. Dvalið er þar hálfan mánuð í senn.

Stuðningsfjölskyldur

Fjölskyldur barna með fötlun eiga kost á stuðnings-fjölskyldu. Þar getur barnið dvalið í stuttan tíma til að gefa foreldrum þess tækifæri til hvíldar og veita barninu tilbreytingu, hvatningu og efla félagslega færni. Stuðnings-fjölskyldan hefur barnið að jafnaði tvo sólarhringa á mánuði.

Að sækja um

Sótt er um á Mínum síðum. Við mat á umsókn er horft til fötlunar barnsins, þörf þess fyrir umönnun og félagslegra aðstæðna fjölskyldunnar.