Fólk með fötlun

Fólk með fötlun á rétt á þjónustu og stuðningi sem það þarf til að lifa sjálfstæðu og virku lífi. Í Hafnarfirði er þjónandi leiðsögn höfð að leiðarljósi. Hlýja og hvatning er sýnd í öllum aðstæðum.

Réttindagæsla

Fólk með fötlun getur leitað til réttindagæslumanns með allt sem varðar réttindi þess, fjármuni og persónuleg mál.

Hvað gerir réttindagæslumaður?

Réttindagæslumaður hjálpar fólki með fötlun að ná fram rétti sínum.

Dæmi um það sem réttindagæslumaður gerir:

  • Fylgist með hvort fólk með fötlun njóti réttinda sinna.
  • Aðstoðar fólk með fötlun við að ná fram rétti sínum.
  • Bendir á hvað megi betur fara í þjónustu við fólk með fötlun.
  • Aðstoðar við að fá persónulegan talsmann.

Öll sem telja að verið sé að brjóta á manneskju með fötlun eiga að tilkynna það til réttindagæslumanns.

Til að hafa samband við réttindagæslumann er hægt að senda tölvupóst á postur@rettindagaesla.is eða hringja í síma 554 8100.

Það er líka hægt að fá meiri upplýsingar hjá Þroskahjálp sem eru hagsmuna-samtök fólks með fötlun í síma 588 9390.

Persónulegur talsmaður

Fólk með fötlun sem á erfitt með að gæta réttar síns getur valið sér persónulegan talsmann sem hjálpar því að koma óskum sínum á framfæri. Talsmaður getur til dæmis aðstoðað við samskipti við heilbrigðisstarfsfólk, val á búsetu, atvinnu, tómstundum og ráðstöfun fjármuna.

Persónulegir talsmenn þurfa að þekkja persónulegar þarfir og áhugamálum þess sem aðstoðað er. Einnig þarf að fara á tilheyrandi námskeið. Starfið er ólaunað en kostnaður vegna starfsins fæst endurgreiddur.

Útskýring á réttindum fatlaðs fólks á myndbandi