Þjónustusamningur vegna NÚ

Fréttir

Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær þjónustusamning Hafnarfjarðarbæjar við Framsýn-Skólafélag. Framsýn-Skólafélag hyggst hefja rekstur unglingaskólans Nú í Hafnarfirði haustið 2016 þar sem áhersla verður lögð á upplýsingatækni, heilsu og hreyfingu.

Þjónustusamningur vegna nýs grunnskóla í Hafnarfirði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær tillögu fræðsluráðs um þjónustusamning Hafnarfjarðarbæjar við Framsýn-Skólafélag og þar með stofnun grunnskóla Framsýnar og framlög til hans. Framsýn-Skólafélag hyggst hefja rekstur unglingaskólans Nú í Hafnarfirði haustið 2016 þar sem áhersla verður lögð á upplýsingatækni, heilsu og hreyfingu.

Þjónustusamningur felur í sér að Hafnarfjarðarbær greiðir rekstrarframlag vegna allt að 45 nemenda úr Hafnarfirði til grunnskóla Framsýnar. Skólinn verður einnig opinn fyrir nemendur úr öðrum sveitarfélögum en bærinn greiðir ekki rekstrarframlag vegna þeirra. Menntamálastofnun hefur gefið út viðurkenningu á starfsemi skólans og mun hann, líkt og aðrir skólar, starfa í samræmi við gildandi grunnskólalög. Samkvæmt viðauka við fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar verður kostnaðarþáttum vegna skólans mætt með breytingum innan fjárhagsáætlunar. Rými innan fjárhagsáætlunar er til komið vegna minna fjárframlags en áætlanir gerðu ráð fyrir til Barnaskóla Hjallastefnunnar á yfirstandandi fjárhagsári, bæði vegna færri nemenda og vegna þess að miðstig skólans hættir. Rekstrarframlag Hafnarfjarðarbæjar nemur 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar á hvern nemanda allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu samkvæmt árlegum útreikningum Hagstofu Íslands og í samræmi við lög. Innifalið í þeim kostnaði er húsnæðiskostnaður, stjórnun, kennsla, sérfræðiþjónusta og annar almennur rekstrarkostnaður vegna skólastarfs. Framlag Hafnarfjarðarbæjar miðast við fjölda nemenda í skólanum í hverjum mánuði fyrir sig, allt að 45 nemendum.  Er þetta í takt við það framlag sem þegar er greitt í dag með hafnfirskum nemendum sem stunda nám í sjálfstætt reknum skólum. Skólinn er rekinn án hagnaðarsjónarmiða og mun sá rekstrarafgangur sem kann að koma til verða nýttur til að styrkja innviði hans í formi námsgagna og kennslubúnaðar. Skólinn hefur heimild til gjaldtöku af foreldrum eða forsjáraðilum barns fyrir þjónustu, svo sem skólagjöld og fæðisgjöld. Nýr skóli undirgengst sömu skilyrði og sama ytra mat og aðrir grunnskólar í Hafnarfirði.  

Ábendingagátt