Þríþrautardagurinn 2016

Fréttir

Sunnudaginn 3. júlí heldur 3SH Þríþrautardaginn 2016 í Hafnarfirði. Keppnin hefur undanfarin ár alfarið verið haldin á Vallasvæði og á Krýsuvíkurvegi Í Hafnarfirði en mun í ár teygja anga sína í miðbæ Hafnarfjarðar og enda þar.

Sunnudaginn 3. júlí n.k. heldur 3SH Þríþrautardaginn 2016 í Hafnarfirði. Keppnin hefur undanfarin ár alfarið verið haldin á Vallasvæði og á Krýsuvíkurvegi Í Hafnarfirði en eftir miklar vangaveltur um umfang, eðli og möguleika keppninnar hefur verið ákveðið að gera hana stærri og þar með stækka sjálft keppnissvæðið og opna á tækifæri fyrir fleiri til að njóta og taka þátt. Í ár mun keppnin teygja anga sína í miðbæ Hafnarfjarðar og enda þar.  

Þríþrautardagurinn hefst kl. 8 í Ásvallalaug með sundi. Gera má ráð fyrir að fyrstu keppendur klári sundið á u.þ.b. 20 mínútum og mun þá taka við stýrð umferð fyrir hjólreiðar frá Ásvallalaug út á Krísuvíkurveg. Nokkrar vegalengdir eru í boði og verður aftur ræst í sundið kl. 9 og 9:30 allt eftir því hvort verið sé að taka þátt í hálfum járnmanni, ólympískri þraut, sprettþraut eða liðakeppni. Gera má ráð fyrir einhverjum töfum á umferð þegar hollin fara af stað og eins þegar þau koma aftur til baka að sundlaug. Hjólahluti Þríþrautardags fer að mestu fram á Krýsuvíkurvegi þar sem hjólaðir eru allt að sex hringir, mismunandi eftir því hvaða vegalengd fólk er að taka þátt í.  Á Krýsuvíkurvegi verður umferðarstýring í gangi frá kl. 8 til kl. 13. Keppendur hjóla svo sem leið liggur frá Krýsuvíkurvegi niður að Hafnarfjarðarkirkju í gegnum Ástorg, niður Strandgötu að Fjarðartorgi og þaðan að næsta skiptisvæði sem er við Hafnarfjarðarkirkju. Frá Völlum að Hafnarfjarðarkirkju getur hraði hjóla orðið nokkuð mikill og því nauðsynlegt að loka leið frá Ástorgi niður Strandgötu alla leið að Fjarðartorgi eða allri Strandgötunni til norðurs frá kl. 10:15 – 13:15 þannig að tryggja megi öryggi allra hlutaðeigandi.  Strandgata verður opin til suðurs.  Allir þeir sem ferð eiga um svæðið eru beðnir um að sýna biðlund og tillitsemi á meðan á keppni stendur.  Reynt verður eftir megni að lágmarka lokun á götum en líklegt þykir að tafir getið orðið á umferð frá kl. 10:15 – 13:15. 

3SH_Hjolaleid-i-midbae_JPGHjólaleið frá Völlum í miðbæ Hafnarfjarðar – Ásbraut og Strandgata til norðurs lokaðar frá kl. 10:15 – 13:15

Skiptisvæði af hjóli yfir á hlaup verður sem fyrr segir á bílastæði við Hafnarfjarðarkirkju þar sem hluti af stæði verður lagður undir keppnina. Þriðji og síðasti hluti þríþrautar, hlaupahlutinn, mun fara fram á Strandstíg í miðbæ Hafnarfjarðar og mun verðlaunaafhending í lok keppni eiga vera á Strandstíg til móts við Íþróttahúsið á Strandgötu. Stígurinn verður lokaður fyrir aðra umferð frá kl. 10:20 til 16:00 þennan sunnudag.

Við hvetjum alla þá sem áhuga hafa til að taka virkan þátt í Þríþrautardeginum. Það er hægt með beinni þátttöku í keppninni sjálfri eða með virkri hvatningu og stuðningi til þátttakenda sjálfra.

Fyrirfram takk fyrir sýnda biðlund og tillitsemi! 

Ábendingagátt