Uppskáru gleði og mannrækt við gróðursetningu grænmetis

Fréttir

Hafnfirskar fjölskyldur og flóttafjölskyldur hittust í skólagörðunum við Öldutún síðdegis í gær í glaðasólskini. Þetta var opnunaviðburður fyrir uppskeruverkefni á vegum Hafnarfjarðarbæjar og GETA-hjálparsamtaka til að efla tengsl.

Tengslin ræktuð við garðyrkjustörf við Öldutún!

Já, mannrækt og sterkari tengsl var meginstef hittings hafnfirskra fjölskyldna og fjölskyldna á flótta sem hittust í skólagörðunum við Öldutún síðdegis í gær. Þetta var opnunaviðburður fyrir uppskeruverkefni á vegum Hafnarfjarðarbæjar og GETA-hjálparsamtaka. 24 fjölskyldur voru skráðar til leiks og mætti fjöldi fólks til að efla tengslin og upplifa.

Markmiðið er að tengja saman þessar fjölskyldur sem allar búa í Hafnarfirði og gefa þeim tækifæri til að deila reynslu og þekkingu og hjálpast að við að rækta sitt eigið grænmeti í sumar. Carmen Fuchs, sérfræðingur í málefnum flóttafólks hjá Hafnarfjarðarbæ stýrir verkefninu. Hún segir ræktun stundaða um allan heim og því tilvalda til að efla tengslin.

„Það er ekki aðeins þau aðfluttu sem eru að aðlagast heldur einnig samfélagið sem tekur á móti þeim. Þessar hafnfirsku fjölskyldur eru opnar fyrir því að læra af hinum, en sýna þeim á sama tíma hvað er í boði í heimabænum þeirra,“ sagði Carmen í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Túlkar og garðyrkjufræðingur hristu saman hópinn

Fjölskyldurnar skráðar til leiks eru frá fimm löndum. Þrír túlkar, arabískur, úkraínskur og spænskur voru á staðnum til að létta samskiptin við þessi fyrstu kynni og garðyrkjufræðingur gaf góð ráð. Gleðin var við völd og börnin hlupu kát um garðinn sem hafði verið plægður af sjálfboðaliðum fyrir gróðursetninguna þetta síðdegi. Nú tekur Google translate við þegar fjölskyldurnar rækta garðinn sinn saman í sumar. Carmen segir að eftir sumarið sé markmiðið að uppskera ríkulega, betri tengsl, betra samfélag, gott grænmeti.

Mikilvægt að rækta tengslin

Flóttafjölskyldurnar sem tóku þátt eru bæði með og án kennitölu. Þær eru á ólíkum stað í umsóknarferli en hafa þegar tekið fyrstu skref í samfélaginu. Það er því mikilvægt að rækta tengsl. Hafnarfjarðarbær vinnur verkefnið með GETA-hjálparsamtökum sem styður við flóttafólk og umsækjendur um vernd og stuðlar að jákvæðri aðlögun inn í samfélagið.

  • Hér má hlusta á viðtalið við Carmen frá Hafnarfjarðarbæ og Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur frá GETA-hjálparsamtökunum í Morgunútvarpinu.
  • Hér má kynnast GETA-hjálparsamtökum betur
  • Hér meira um verkefnið Growing Roots
Ábendingagátt