Verkefnastjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðar

Fréttir

Magnús Bjarni Baldursson hefur verið ráðinn verkefnastjóri nýrrar Markaðsstofu Hafnarfjarðar til sex mánaða.  Magnús Bjarni var ráðinn úr hópi um fimmtíu umsækjenda.

Magnús Bjarni Baldursson hefur verið ráðinn verkefnastjóri nýrrar Markaðsstofu Hafnarfjarðar til sex mánaða.  Magnús Bjarni var ráðinn úr hópi um fimmtíu umsækjenda.

Magnús Bjarni hefur umtalsverða reynslu af markaðsmálum, uppbyggingu vörumerkja, auglýsingamiðlun og stjórnunarstörfum. Að auki hefur hann starfað við háskólakennslu, setið í stjórnum fyrirtækja og var formaður  Sambands íslenskra auglýsingastofa um tíma. Magnús Bjarni hefur BS gráðu í raunvísindum frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í hagrænni aðferðafræði frá York University í Toronto, Kanada.

Magnús mun starfa með undirbúningsstjórn Markaðsstofunnar við að skilgreina hlutverk hennar, undirbúa formlega stofnun, virkja samvinnu bæjarins, fyrirtækja og íbúa auk þess að vinna að stefnumörkun stofunnar. 

“Við erum virkilega ánægð með að hafa fengið reynslumikinn aðila með víðtæka þekkingu á markaðsmálum til liðs við okkur. Bæjarfélagið og samfélagið hér í Hafnarfirði bindur miklar vonir við Markaðsstofu Hafnarfjarðar sem stefnt er að því að stofna formlega í haust” segir Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri.

“Ég er afar spenntur fyrir því að fá tækifæri til að koma að þessu góða verkefni. Ég hlakka til að vinna með Hafnfirðingum að því að gera góðan bæ enn betri. Það eru sérstök tækifæri mjög víða í Hafnarfirði og ég finn fyrir miklum krafti á þessum vettvangi hér í bænum.” segir Magnús Bjarni Baldursson Hann hefur störf 5. júní n.k.

Um Markaðsstofu Hafnarfjarðar

Unnið er að formlegri stofnun Markaðsstofu Hafnarfjarðar sem áætlað er að taki til starfa á haustmánuðum. Markaðsstofa Hafnarfjarðar mun verða leiðandi í að gera Hafnarfjörð að öflugum valkosti fyrir fólk og fyrirtæki til búsetu, atvinnu og afþreyingar. Með eflingu samstarfs íbúa, fyrirtækja, félaga og bæjaryfirvalda verður Markaðsstofan einnig vettvangur skoðanaskipta um hvernig gera megi góðan bæ enn betri.
Nánari upplýsingar veitir Kristín Thoroddsen formaður stjórnar Markaðsstofu Hafnarfjarðar í síma 821 132

Ábendingagátt