Við erum þorpið: Fundaröð um líðan og öryggi ungs fólks

Fréttir

Fundarröðin Við erum þorpið hefst 8. október í Bæjarbíói. Hún miðar að því að bregðast við stöðunni í samfélaginu og koma með tillögur að aðgerðum sem snúa að líðan og öryggi ungs fólks.

Öryggi og góð líðan, já við erum þorpið

Hafnarfjarðarbær bendir ungmennum og öllum sem hafa áhuga á samfélagi sínu, góðri líðan og öruggu umhverfi á fundarröðina: Við erum þorpið.

Tveir fundir eru þegar komnir á dagskrá. Sá fyrsti ber yfirskriftina „Framtíðin er björt ef við viljum það öll.“ Þetta er opinn fundur með ungmennum og fyrir ungmennin, fjölskyldur þeirra og öll áhugasöm, haldinn í Bæjarbíói þriðjudaginn 8. október kl. 17:30.

Eva Mattadóttir stýrir stundinni, samtalinu og umræðunum. Áherslan  er lögð á að gestir geti komið hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri með skilvirkum og gagnvirkum hætti. Markmiðið er að safna saman hugmyndum og tillögum að aðgerðum sem snúa að öryggi og vellíðan barna og ungmenna í „þorpinu“ sínu.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri opnar fundinn. Í pallborði sitja fulltrúar frá ungmennum, lögreglu og sveitarfélagi og hefst umræðan með sterkum skilaboðum frá hverju og einu þeirra til gesta í sal.

Ráð við hegðun og líðan unga fólksins okkar

Hinn fundurinn ber yfirskriftina Hegðun og líðan ungs fólks og verður hann 15. október kl. 21. Hann er hugsaður sem fræðslukvöld fyrir foreldra, forsjáraðila og öll áhugasöm með fagfólki og sálfræðingum Hafnarfjarðarbæjar um hegðun og líðan unga fólksins okkar.

Markmiðið er að þátttakendur gangi út með hagnýt ráð og hjálpleg viðbrögð í uppeldinu.

Þessar kvöldstundir eru sniðnar til að hafa áhrif á samfélagið okkar, hvernig það er og hvernig það þróast. Við hvetjum því öll til að taka þátt, mæta og láta ekki sitt eftir liggja.

 

Ábendingagátt