Miðvikudaginn 7. júní kl. 20 mun Ólöf Bjarnadóttir, safnafræðingur, leiða fyrstu menningar- og heilsugöngu sumarsins, þar sem skoðuð verða valin hús sem Guðjón Samúelsson (1887-1950), húsameistari ríkisins, teiknaði. Í Hafnarfirði má enda finna hús frá ólíkum tímabilum á ferli Guðjóns sem setja mikinn svip á bæinn og telja má til helstu kennileita hans. Í göngunni verða nokkur þessara húsa skoðuð og farið yfir sögu þeirra. Gengið verður frá Flensborg, um Skúlaskeið og miðbæinn og endar gangan við Hafnarborg.

Hafnarfjarðarbær býður upp á menningar- og heilsugöngur öll miðvikudagskvöld í sumar. Flestar göngurnar taka um klukkustund og hefjast kl. 20, nema annað sé tekið fram. Menningar- og heilsugöngur eru samstarfsverkefni Hafnarborgar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Bókasafns Hafnarfjarðar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Þátttaka er ókeypis og öll velkomin.

Ábendingagátt