Viltu slást í hópinn? Átta vantar á sláttuvélarnar

Fréttir

Hafnarfjarðarbær óskar eftir átta átján ára og eldri til að slást í sláttuhóp Hafnarfjarðarbæjar. Samið hefur verið við verktaka um að fjölga sláttusvæðum. Sláttur hefur dregist enda vantar hendur og sprettan verið einstaklega góð í í ár.

Viltu slást í hópinn?

Nú er það svart – en ætti að vera grænt! Átta vantar í sláttuteymi Hafnarfjarðarbæjar. Þetta er tækifæri fyrir öll 18 ára og eldri. Hvert hverfið á fætur öðru verður grænna og grænna, grasið vex og fámennt teymið hefur ekki undan. Og – þetta er tækifæri fyrir konur. Engin kona er í þessu 19 manna teymi! Koma svo. Viltu ryðja brautina og verða hafnfirskur orfari?

Já, sumarið kom snemma. Grasvöxtur hófst þremur vikum fyrr en oftast nær. Sláttuteymi bæjarins hefur forgangsraðað. Það fer milli hverfa. Fer úr Norðurbæ í Hraunin og miðbæinn. Þaðan í Setberg, svo Hvamma og Suðurbæ. Þá Holtið, svo eru það Áslandið og Vellirnir. Garðyrkjustjórinn segir stystan tíma taka að slást þar því skipulag svæðisins er svo gott, slétt og fellt.

Hafnarfjarðarbær hefur brugðist við fámenninu og fengið verktaka til að slá fleiri svæði. Nú er staðan sú að sláttur er um þremur til fjórum vikum á eftir áætlun. En þetta má laga og bæta.

Við hvetjum öll 18 ára og eldri til að slást í sláttuhóp Hafnarfjarðarbæjar!

Ábendingagátt