Hafnarfjarðarbær kaupir húsnæði Kænunnar

Fréttir

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti samhljóða á fundi sínum þann 29. janúar síðastliðinn kauptilboð í húsnæði Kænunnar að Óseyrarbraut 2. Fyrirtækið Matbær ehf. sem á og rekur Kænuna mun hafa fullt umráð yfir eigninni fram að afhendingu sem ráðgerð er 1. desember 2028.

Kænan áfram í rekstri næstu árin

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti samhljóða á fundi sínum þann 29. janúar síðastliðinn kauptilboð í húsnæði Kænunnar að Óseyrarbraut 2. Fyrirtækið Matbær ehf. sem á og rekur Kænuna mun hafa fullt umráð yfir eigninni fram að afhendingu sem ráðgerð er 1. desember 2028. Valdimar Víðisson bæjarstjóri Hafnarfjarðar og eigendur Matbæjar undirrituðu og handsöluðu kaupsamning rétt fyrir helgi.

Blendnar tilfinningar en enn nægur tími til stefnu

„Við eiginkona mín, Helga Ösp Jóhannsdóttir, keyptum Kænuna í nóvember 2016 og hefur góður stígandi verið í rekstrinum. Árið 2024 var eitt besta ár í sögu Kænunnar,“ segir Oddsteinn Gíslason eigandi. Kænan hefur í gegnum árin sérhæft sig í þjóðlegum íslenskum heimilismat. Gestahópurinn er stór og fjölbreyttur, allt frá iðnaðarmönnum af höfuðborgarsvæðinu öllu til hópa af erlendum ferðamönnum sem vilja kynnast íslenskri matseld. „Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja því að selja en það eru enn nokkur ár til stefnu. Við munum halda áfram að sinna gestum okkar allt fram að lokun,“ segir Oddsteinn. Kaupverðið er 265 milljónir kr. fyrir 324 m² húsnæði sem stendur á  2.363 m² leigulóð og tekur það tillit til rekstrarlokunar. Gert er ráð fyrir að Kænan verði í fullum rekstri fram að afhendingardegi.

Við afgreiðsluborðið. Valdimar Víðisson bæjarstjóri með þeim Helgu Ösp Jóhannsdóttur og Oddsteini Gíslasyni eigendum Kænunnar.

Tækniskóinn rís í Hafnarfirði

„Á Flensborgarhöfn liggur fyrir að byggja af stórhug til framtíðar meðal annars með uppbyggingu á nýjum og glæsilegum Tækniskóla. Slík umbylting kallar á breytingar og ákaflega ánægjulegt að ná að ganga frá samningi við Matbæ sem eigendur eru sáttir við,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri. Bygging nýs Tækniskóla í Hafnarfirði markar umbyltingu í aðstöðu til iðn-, starfs- og tæknináms á höfuðborgarsvæðinu. Með framkvæmdinni er nám og aðstaða efld til muna, allri starfsemi skólans komið fyrir á einum stað og brugðist við aukinni eftirspurn nemenda og þörfum atvinnulífsins. Fyrirhuguð er 30.000 fermetra bygging sem rúmar um 3.000 nemendur. Framkvæmdin verður í tveimur áföngum, í fyrri áfanga er byggð um 24.000 m2 bygging og í seinni áfanga um 6.000 m2 viðbót. Verklok eru áætluð haustið 2029. Þá er gert ráð fyrir frekari stækkunarmöguleikum á lóðinni í framtíðinni. „Þar til uppbygging á nýjum tækniskóla raungerist mun ég halda áfram að njóta þess að borða á Kænunni líkt og þúsundir annarra enda staðurinn í miklu uppáhaldi hjá mér,“ segir Valdimar.

Ábendingagátt