Tónlistarsmiðja fyrir börn 0-4 ára á föstudögum

Fréttir

Tónagull og Hafnarfjarðarbær bjóða upp á fjöltyngda tónlistarsmiðju fyrir fjölskyldur með börn á aldrinum 0-4 ára. Fyrsti tíminn er á föstudag milli klukkan 9.30-10.30 og svo vikulega.

Tónlist tengir okkur saman

Nú hleypur á snærið hjá foreldrum 0-4 ára barna. Tónagull og Hafnarfjarðarbær bjóða upp á fjöltyngda tónlistarsmiðju fyrir fjölskyldur með börn á aldrinum 0-4 ára.

„Þetta er eintóm gleði,“ segir Helga Rut Guðmundsdóttur, prófessor í tónmennt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og upphafsmaður Tónagulls.  „Já, alltaf virkilega skemmtilegt.“

Skemmtunin er ókeypis og í boði alla föstudaga frá 9.30-10.30 frá 7. febrúar að Selhellu 7 í Hafnarfirði. Smiðjan hentar vel foreldrum sem hafa börnin sín heima en langar að hitta aðra foreldra og leyfa börnunum að hitta önnur börn.

Kenna þvert á tungumál

Myndband frá námskeiði Tónagulls.

Helga er upphafsmaður Tónagulls og hugmyndasmiðurinn á bakvið. Hún þjálfar kennara og hefur gert frá árinu 2004. Tónagull er með íslenskar, pólskar og úkraínskar smiðjur og nú einnig alþjóðlega í Hafnarfirði. „Já, við vinnum þvert á tungumál,“ segir Helga.

„Almennt notum við í Tónagulli íslenskan þjóðaarf; vísur, þulur og þjóðlög. Svo gerum við það sama fyrir pólsku og úkraínsku hópana en núna prófum við okkur áfram með alþjóðlegan hóp. Viljum leiða fólk saman í gegnum tónlist og ryþma,“ segir hún.

„Það þarf ekki að kenna litlum börnum að skilja tónlist. Hún er þeim eðlislæg. Tónlist tengir fólk saman, foreldra og börn, afa og ömmur, já og hópa saman.“

Markmiðið að auka gleðina

Í smiðjunni skemmta börnin og fullorðnir sér við að syngja söngva og þulur, hreyfa sig og leika með litríka klúta, auk þess að spila á ýmis smáhljóðfæri sem eru sérstaklega valin fyrir þennan aldurshóp. Markmiðið með smiðjunni er að efla gleði og vellíðan í gegnum tónlist og hreyfingu, jafnt fyrir börn og foreldra.

Börn elska tónlist og það eru fleiri tækifæri fyrir þau að njóta. Tónagull er einnig í samstarfi við Hafnarborg. Á sunnudögum er samskonar söngstund í boði þar kl. 14. Viljið þið taka þátt eruð þið vinsamlegast beðin um að skrá þátttöku hér.

Ekki þarf hins vegar annað á Selhellu á föstudag en að mæta. Velkomin öll.

Já, tónar eru gull fyrir okkur öll!

Ábendingagátt